Sýningaropnun í dag milli 17 - 19

Í tilefni sýningaropnunarinnar í dag verðum við með opið í Garðskálanum til kl 19.00 og verður í boði súpa, smurbrauð, en við ætlum einnig að vera með í boði dásamlegt naut og salat.

Aðeins um sýninguna:

Katrín Elvarsdóttir sýnir ljósmyndaverkið "Margföld hamingja" sem hún vann í Kína á árunum 2010-2014. Katrín dregur upp mynd af borg á mörkum þess hversdagslega og skáldaða með portrettmyndum af eldra fólki, náttúru í manngerðu umhverfi, híbýlum og fundnum skúlptúrum. Fábrotið og einsemdarlegt borgarumhverfið stangast á við titil myndaraðarinnar, tvítekningu á kínversku tákni fyrir hamingju sem er notað í skraut og til að marka hátíðlega viðburði.

Ingvar Högni Ragnarsson sýnir ljósmyndaseríu sem hann tók á þriggja vikna vinnustofudvöl við ARCUB í Rúmeníu. Búkarest er höfuðborg sem á sér að baki flókna en fjölbreytta sögu. Félagslegt húsnæði er enn ríkjandi fyrirkomulag í húsnæðismálum allt frá tíma kommúnismans (1945-1989) og yfir 60% íbúa býr við kröpp kjör og á sér takmarkaða framtíðarmöguleika. Ingvar Högni velur sér að huga að hinu rólega andrými hversdagsleikans í verkum sínum þar sem hann dregur fram persónulegt sjónarhorn á umhverfið og einstaklinginn. Um leið afhjúpar hann flókið samspil samfélagsins og stéttaskiptingar, persónulegar sögur um brostna fortíð eða framtíðarvonir.

Sýningin stendur frá 15. janúar til 27. febrúar.

Við hlökkum til að sjá ykkur kæru gestir á næstunni í Garðskálanum!

Bakgrunnur: Iris Agusts