Nýtt og dásamlegt ár hafið

Kæru vinir og velunnarar. Nú er hafið nýtt ár sem byrjar svona aldeilis vel! Við tókum okkur gott jólafrí og lokuðum með Gerðarsafni yfir jól og áramót og nutum hátíðanna með fjölskyldu og vinum.

Við gleðjumst yfir mikilli aðsókn okkar yndislegu viðskiptavina á nýju ári og sérstaklega erum við glöð yfir viðtökum ykkar á bruchinum okkar, en nú er svo komið að það er vissara að panta sér borð til að tryggja sér sæti um helgar.

Einnig er byrjað að bókast hjá okkur yfir fermingartímabilið, bæði í sal og veislur út úr húsi, svo ekki er seinna en vænna en að hafa samband og athuga hvort að við séum laus.

Kær kveðja, Garðskálafjölskyldan

Jólatíðin nálgast óðfluga!

Kæru vinir og velunnarar, nú líður senn að jólum og við í Garðskálanum fögnum því líkt og flestir landsmenn. Við verðum með spennandi jólamatseðil í hádeginu og kynnum við það um leið og það byrjar.

Svo hefur mikið verið spurt um jólapatéið okkar og sulturnar og verður það að sjálfsögðu á sínum stað og mun það ekki fara framhjá neinu mannsbarni þegar það kemur í sölu (svona nokkurnvegin).

Gleðilega komandi hátíð frá Garðskálanum

SAFNANÓTT í kvöld föstudaginn 5. febrúar

Verið hjartanlega velkomin á Safnanótt. Við verðum að sjálfsögðu með opið í Garðskálanum til miðnættis í kvöld. Tilvalið að koma og fá sér eitthvað gott að borða og svo er happy hour tilboð á húsvíni og Gull.

Hlökkum til að sjá ykkur öll! Ást og friður, Garðskálaliðið!

Sýningaropnun í dag milli 17 - 19

Í tilefni sýningaropnunarinnar í dag verðum við með opið í Garðskálanum til kl 19.00 og verður í boði súpa, smurbrauð, en við ætlum einnig að vera með í boði dásamlegt naut og salat.

Aðeins um sýninguna:

Katrín Elvarsdóttir sýnir ljósmyndaverkið "Margföld hamingja" sem hún vann í Kína á árunum 2010-2014. Katrín dregur upp mynd af borg á mörkum þess hversdagslega og skáldaða með portrettmyndum af eldra fólki, náttúru í manngerðu umhverfi, híbýlum og fundnum skúlptúrum. Fábrotið og einsemdarlegt borgarumhverfið stangast á við titil myndaraðarinnar, tvítekningu á kínversku tákni fyrir hamingju sem er notað í skraut og til að marka hátíðlega viðburði.

Ingvar Högni Ragnarsson sýnir ljósmyndaseríu sem hann tók á þriggja vikna vinnustofudvöl við ARCUB í Rúmeníu. Búkarest er höfuðborg sem á sér að baki flókna en fjölbreytta sögu. Félagslegt húsnæði er enn ríkjandi fyrirkomulag í húsnæðismálum allt frá tíma kommúnismans (1945-1989) og yfir 60% íbúa býr við kröpp kjör og á sér takmarkaða framtíðarmöguleika. Ingvar Högni velur sér að huga að hinu rólega andrými hversdagsleikans í verkum sínum þar sem hann dregur fram persónulegt sjónarhorn á umhverfið og einstaklinginn. Um leið afhjúpar hann flókið samspil samfélagsins og stéttaskiptingar, persónulegar sögur um brostna fortíð eða framtíðarvonir.

Sýningin stendur frá 15. janúar til 27. febrúar.

Við hlökkum til að sjá ykkur kæru gestir á næstunni í Garðskálanum!

Ertu saddur eftir hátíðirnar?

Ef þú ert ekki saddur eða södd er tilvalið að kíkja til okkar í Garðskálann og metta hungrið því við erum með opið á venjulegum opnunartíma næstu vikurnar þó að Gerðarsafn sé að setja upp nýja sýningu. Það verður ilmandi og góð súpa á hverjum degi ásamt einhverjum mjög spennandi nýungum sem Ægir er að vinna í.

Hlökkum til að sjá ykkur á þessu frábæra ári sem er nýgengið í garð.

Kær kveðja, starfsfólk Garðskálans!

Jólajazz og sælkerastund í Garðskálanum

Ægir verður með létt spjall í sælkerastund næstkomandi laugardag, 19. desember. Fágætir íslenskir ostar úr ostakjallaranum paraðir saman við gæðabjóra og eðalhvítvín verða í forgrunni á matseðli og einnig fæst smurbrauð og kaffiveitingar. Ægir mun kynna jólakræsingar ásamt matar- og vínsérfræðingum og bjóða gestum og gangandi upp á matarráðgjöf. Eins verður hægt að kaupa góðgæti úr smiðju Garðskálans, þar á meðal hátíðarpaté, karamellufíkjur og appelsínusíld.

Sælkerastundin hefst kl. 15 og mun Smart2 Djassdúó flytja ljúfa jólatóna. Dúóið skipa Marteinn Sindri Jónsson píanóleikari og Birkir Blær Ingólfsson saxafónleikari.

///

STÚDÍÓ GERÐAR : Jólakortasmiðja fyrir alla fjölskylduna

Opin jólakortasmiðja stendur nú yfir í Stúdíói Gerðar á neðri hæð Gerðarsafns. Smiðjan er sett upp í tengslum við verk Barböru Árnason (1911-1975) og má þar sjá fjöldi myndskreytinga sem Barbara gerði fyrir barnabækur og jólakort. Smiðjan er tilvalin skapandi samverustund fyrir alla fjölskylduna í skemmtilegu umhverfi.

Hlökkum til að sjá ykkur!

Þökkum frábærar viðtökur!

Okkur langar að þakka frábærar viðtökur og falleg orð í okkar garð!

Þessi fyrsta vika hefur heldur betur farið vel af stað og seldist Hátíðarpatéið okkar upp til að mynda, en það verður aftur til núna um helgina!

Hlökkum til að taka á móti okkur núna á aðventunni og ylja ykkur að innan sem utan með dásemdar súpunum hans Ægis og öllu hinu.

Verið velkomin!

Opnum á morgun!

Hlökkum til að sjá ykkur á morgun miðvikudag 02. desember. Súpa vikunnar, nýbakað súrdeigsbrauð og dásamlegar kökur eru meðal annars sem við verðum með á boðstólnum.

Aðventuhátíð Kópavogs fyrsta sunnudag í aðventu

Nú nálgast jólin og við stefnum á að opna núna í nóvember. Við erum að gera allt í okkar valdi til þess að ná að opna og hafa allt klárt fyrir aðventuhátíð Kópavogs sem verður haldin á túninu fyrir utan hjá okkur. 

Við verðum með bás líka fyrir utan og úrval af girnilegum vörum til sölu í fallegum umbúðum sem er annaðhvort gaman að gefa eða njóta sjálfur. Hér er slóðin á Facebook viðburðinn: 

https://www.facebook.com/events/1657876774457526/

Sjáumst þá! Kveðja starfsfólk Garðskálans.

 

Bakgrunnur: Iris Agusts